Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B- hluta, á fyrstu níu mánuðum ársins — það er fyrir tímabilið janúar til september 2016 — var jákvæð um rúma 17,5 milljarða króna. Áætlanir borgarinnar gerðu ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 8,5 milljarða. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er því ríflega 9 milljörðum betri en spár gerðu ráð fyrir. Á sama tímabili í fyrra var rekstrarniðurstaða samstæðunnar neikvæð um 2,4 milljarða.

„Helstu ástæður fyrir betri afkomu má rekja annars vegar til hærri tekjufærðra matsbreytinga fjárfestingaeigna Félagsbústaða hf. og hins vegar lægri fjármagnsgjalda samstæðunnar vegna hagstæðrar gengisþróunar, gangvirðisbreytinga innbyggðra afleiða í raforkusamningum hjá Orkuveitu og lægri verðbólgu en áætlun gerði ráð fyrir,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Orkuveitan spilar veigamikið hlutverk

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um þá nam rekstrarhagnaður 9,4 milljörðum og jókst því um 203% frá sama tímabili í fyrra miðað við fyrstu níu mánuðina árið 2015. Reykjavíkurborg á 93,5% í Orkuveitunni og fellur hún undir B-hluta samstæðunnar.

Laun og launatengd gjöld hjá samstæðunni hækkaði um rúma 4 milljarða úr 42,3 milljörðum í lok tímabilsins árið 2015 og upp í 46,8 milljarða í lok tímabilsins árið 2016.

Rekstrartekjur Reykjavíkurborgarsamstæðunnar á tímabilinu námu 113,2 milljörðum á tímabilinu samanborið við 105 milljarða árið áður. Rekstrargjöld lækka hins vegar lítillega milli ára eða úr 87,86 milljörðum á tímabilinu í fyrra og niður í 86,5 milljarða á tímabilinu á þessu ári.

A-hluti samstæðunnar

Rekstrarniðurstaða A-hluta samstæðunnar var jákvæð um rúman milljarð en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 67 milljónir á tímabilinu. „Betri rekstrarniðurstaða skýrist að stærstum hluta af lægri rekstrarkostnaði, sem var 889 mkr lægri en áætlun gerði ráð fyrir og meiri þjónustutekjum sem skiluðu 408 mkr umfram áætlun á fyrstu níu mánuðum ársins.  Á móti hækkuðu lífeyrisskuldbindingar 749 mkr umfram áætlun á tímabilinu,“ segir í fréttatilkynningu.

Efnahagsreikningur

Eignir Reykjavíkurborgar þ.e. A- og B- hluta samstæðunnar, námu 528 milljörðum í lok tímabilsins. Skuldir og skuldbindingar samstæðunnar lækkuðu úr 301,5 milljörðum í lok tímabilsins í fyrra og niður í 292,2 milljarða í lok fyrstu níu mánaða þessa árs.

Eigið fé var 236.159 mkr en þar af var hlutdeild meðeigenda 13.166 mkr.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar fer hækkandi og er nú 44,7% en var 42,9% um síðustu áramót,“ segir einnig í tilkynningunni.