Stefán Sigurðsson var ráðinn forstjóri fjarskiptafyrirtækisins Vodafone í síðustu viku eftir að hafa unnið hjá Íslandsbanka og áður Glitni um árabil.

„Mér fannst þetta einstakt tækifæri og ég hefði svo sannarlega ekki stokkið til fyrir hvaða fyrirtæki eða geira sem er,“ segir Stefán aðspurður um það hvers vegna hann hafi ákveðið að söðla um og hefja störf hjá Vodafone. Hann segir að sér finnist skemmtilegt að takast á við nýjar áskoranir. Hann hafi unnið mörg ólík störf innan bankageirans og sú reynsla muni nýtast honum nú þegar hann er að kynnast nýjum geira. „Fjarskiptageirinn er í mikilli mótun og það eru ákveðin tækifæri sem felast í þeim breytingum sem mér fannst spennandi að takast á við,“ segir Stefán.

Nú síðast vann Stefán sem framkvæmdastjóri VÍB-Eignastýringasviðs Íslandsbanka. Hann segir að það hafi verið skemmtilegasta starf sem hann hefði sinnt hingað til, en þegar hann tók við starfinu var hann í raun að taka við gamla eignastýringarsviði Glitnis eftir bankahrun og endurreisa það. „Verkefnið var fjölbreytt og krefjandi. Við þurftum að byggja upp innviði, það þurfti að hugsa um sölu og þjónustumál og byggja í raun upp nýtt vörumerki,“ segir Stefán. Sem framkvæmdastjóra VÍB var Stefán hluti af framkvæmdastjórn Íslandsbanka og þurfti m.a. að samþætta og tengja starfsemi VÍB við aðra starfsemi bankans. „Ég hef mjög gaman af því að vinna svona breitt og fá tækifæri til þess að stýra frábærum hópi fólks. Það var mjög skemmtilegt og gefandi," segir hann.