Umhverfisstofnun tók fyrr í kvöld ákvörðun um það að stöðva starfsemi kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það hafi ekki verið kveikt á ofni kísilmálmverksmiðjunnar í dag. „Svo ákvörðunin er í gildi nú þegar. Þeim er óheimilt að endurræsa hann nema að fengnu skriflegu leyfi frá stofnuninni að loknum fullnægjandi endurbótum,“ segir Kristín Linda.

Þegar hún er spurð út í það hvað slíkar endurbætur gætu tekið langan tíma svarar Kristín Linda: „Við höfum ekki góða tilfinningu fyrir slíku. Það er fyrst og fremst rekstraraðila að svara fyrir um slíkt. Við vitum þó til þess að þeir eru að vinna úrbótaáætlun.“

Reksturinn hefur gengið brösuglega

Eins og áður hefur komið fram að „verulegur fjöldi kvartana hefur borist Umhverfisstofnun frá upphafi rekstrar og eru kvartanir vegna ólyktar umfangsmestar, í hluta af þeim er jafnframt lýst ýmsum líkamlegum einkennum samfara lyktinni.“ Kristín útskýrir að það hafa borist tæplega 1.000 kvartanir frá íbúum.

„Það er ljóst að reksturinn hefur gengið brösuglega hjá þeim frá upphafi og væntingar um að úrbætur sem gerðar hafa verið hafa því miður ekki skilað tilætluðum árangri,“ bætir hún við að lokum.