Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um, hefur stigafjöldi Bertelsmann Foundation vegna Íslands í spillingarvísitölu Transparency International lækkað verulega undanfarin ár, úr 89 stigum árið 2012 niður í 44 stig árið 2020. Bertelsmann Foundation sker sig þannig töluvert úr öðrum stofnunum sem meta spillingu á Íslandi til stiga, hverra stig voru á bilinu 72 til 87 á síðasta ári.

Þrátt fyrir lækkandi stigagjöf Bertelsmann hefur ekki verið marktækur munur á spillingarvísitölu landsins undanfarin ár. Sérfræðingar Bertelsmann Foundation sem meta Ísland til stiga í SGI skýrslu stofnunarinnar eru prófessorarnir Þorvaldur Gylfason og Grétar Þór Eyþórsson.

Á sama tíma og stig Íslands hafa farið stiglækkandi í SGI skýrslu Bertelsmann Foundation hefur umfjöllun skýrslunnar með stigagjöfinni lítið breyst efnislega milli ára og er engan skýran rökstuðning fyrir lækkandi stigagjöf þar að finna. Á undanförnum árum hafa aftur á móti orðið ýmsar breytingar til batnaðar í íslensku regluverki er lúta að þeim atriðum sem spillingarhluti skýrslu SGI tekur til og vert er að gera grein fyrir.

Aðferðafræði spillingarmats SGI skýrslu

Samkvæmt handbók um stigagjöf SGI gefa sérfræðingar stig byggt á spurningunni „Að hvaða marki er komið í veg fyrir að opinberir embættismenn misnoti stöðu sína í þágu eigin hagsmuna?". Í nánari skýringu með spurningunni er hún sögð beinast að því hvernig hið opinbera og samfélagið komi í veg fyrir að opinberir embættismenn og stjórnmálamenn þiggi mútur, með því að koma á innviðum sem tryggja heilindi embættismanna, þar með talið hvað varðar endurskoðun ríkisútgjalda, reglur um fjármögnun stjórnmálaflokka, upplýsingaaðgengi almennings og fjölmiðla, ábyrgð embættismanna (eignaskráning, reglur um hagsmunaárekstra, siðareglur), gagnsæ kerfi um opinber innkaup og virka saksókn spillingarmála.

Vert er að minnast á að skýrsla ársins 2020 tekur til tímabilsins 7. nóvember 2018 til 8. nóvember 2019 og því eðlilegt að SGI skýrslan fyrir árið 2020 fjalli ekki um breytingar sem verða eftir þann tíma.

Ríkisendurskoðun og fjármál stjórnmálasamtaka

Í júní 2019 tóku gildi lög um breytingu á lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Meðal helstu breytinga voru ný áhersla á eftirlit með tekjum ríkisins, aukið aðgengi að gögnum og upplýsingum og samræming við stöðu umboðsmanns Alþingis og Alþingis hvað varðar skjalavistun.

Í lögunum er nú kveðið fortakslaust á um að ríkisendurskoðandi hafi aðgang að rafrænum gögnum og ýmsum opinberum skrám, án gjaldtöku. Þá hefur ríkisendurskoðandi nú skýra heimild til að skoða bókhald þriðja aðila vegna endurskoðunar á endurgreiðslum úr ríkissjóði til einkaaðila. Ekki er minnst á þessa breytingu í skýrslu SGI.

Árið 2006 voru sett lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda sem kveða á um upplýsingaskyldu þeirra. Á þetta hefur verið minnst í skýrslum SGI í gegnum árin, en ekki er minnst á að lögin hafa verið endurbætt fjórum sinnum síðan þá, nú síðast í upphafi árs 2019.

Aukið upplýsingaaðgengi almennings

Með nýjum upplýsingalögum sem tóku gildi árið 2012 var brugðist við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. Með nýju lögunum var leitast við að tryggja aukið gagnsæi í íslenskri stjórnsýslu og gagnsæi um meðferð opinberra hagsmuna.

Um mitt ár 2019 tóku breytingar á upplýsingalögum gildi sem fólu í sér útvíkkun á gildissviði laganna meðal annars hvað varðar stjórnsýslu, Alþingi og dómstóla. Með lögunum voru jafnframt lagðar ríkari kröfur á herðar stjórnvöldum til að tryggja betur aðgengi almennings að upplýsingum. Á úrbætur þessar er ekki minnst í skýrslu SGI.

Siðareglur og hagsmunaskráning

Reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum þingmanna voru settar árið 2009 og endurskoðaðar árin 2011, 2019 og 2020. Siðareglur fyrir alþingismenn voru samþykktar árið 2016 og sérstakar siðareglur ráðherra árið 2017, auk þess sem siðareglur fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands voru settar árið 2012.

Á síðasta ári voru samþykkt lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands. Þá hafa upplýsingar um hagsmunatengsl hæstaréttardómara verið aðgengilegar á heimasíðu réttarins frá árinu 2017. Skýrsla SGI fjallar ekki um þær úrbætur sem hafa orðið á þessu sviði.

Aukið gagnsæi í opinberum innkaupum

Ný lög um opinber innkaup tóku gildi árið 2016. Í greinargerð með lögunum kemur fram að helstu markmið frumvarpsins hafi verið að tryggja gagnsæi, jafnt aðgengi og auka samkeppni um opinbera samninga á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þá var í frumvarpinu lögð áhersla á að draga úr hindrunum og auka aðgengi fyrirtækja að opinberum innkaupum, meðal annars með því að mæla fyrir um sameiginlegan vettvang þar sem öllum opinberum aðilum ber að auglýsa sín innkaup. Ekki er fjallað um úrbætur þessar í skýrslu SGI.

Breytingar á rannsókn og saksókn efnahagsbrota

Í skýrslu um úttekt á Íslandi sem unnin var af starfshópi OECD um mútubrot í alþjóðlegum viðskiptum er fjallað um getu og hæfni stjórnvalda til að koma upp um brot sem varða mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna, rannsaka þau og saksækja.

Í skýrslu vinnuhópsins, sem birt var á síðasta ári, er því fagnað að héraðssaksóknari hafi árið 2016 tekið yfir rannsókn og saksókn efnahagsbrota. Ávinningur sé af nánu samstarfi þeirra sem fara með rannsókn og saksókn í svo flóknum málum og bent er á að slíkt fyrirkomulag hafi gefist vel í öðrum löndum.

Þá er minnst á ýmsar jákvæðar lagabreytingar sem orðið hafa undanfarin ár og snúa meðal annars að hækkun refsinga fyrir mútubrot og breytingar á lögum um meðferð sakamála, sem heimila nú beitingu allra þvingunarúrræða og sérstakra rannsóknaraðgerða við rannsóknir þessara brota.

Þær lagabreytingar sem orðið hafa á undanförnum árum og vinnuhópur OECD fagnar sérstaklega hafa ekki verið til umfjöllunar í skýrslu SGI.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .