Bandaríska tryggingafélagið AIG á nú í viðræðum við bandarísk stjórnvöld um frekari björgunaraðgerðir stjórnvalda en sem kunnugt er yfirtók bandaríska ríkið um 80% hluta í félaginu í haust með 85 milljarða dala fyrirgreiðslu til félagsins.

Síðan þá hefur félagið hins vegar haldið áfram að tapa fjármagni en samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fjórða ársfjórðungs síðasta árs tapaði félagið um 24,5 milljörðum dala.

Ef af verður er þetta í þriðja sinn á rúmlega hálfu ári sem yfirvöld koma félaginu til bjargar. Frá því að yfirvöld ákváðu að taka yfir 80% hluta í félaginu um miðjan september hefur stjórn bankans verið sett af auk þess sem unnið hefur verið að því að selja eignir og draga saman seglin í starfssemi félagsins.

Enn hefur ekkert verið ákveðið en að sögn Financial Times í dag standa viðræður yfir. Talið er að með því að „halda lífinu“ í rekstri félagsins vinnist tími til að halda áfram að selja eignir og varðveita þau verðmæti sem þegar eru til staðar í félaginu. Sala eigna hefur þó gengið hægt sem er að mörgu leyti skiljanlegt miðað við þær aðstæður sem nú ríkja á fjármálamörkuðum.

Financial Times hefur eftir viðmælanda sínum að bandarískir skattgreiðendur hefðu lítinn hag af því að tapa því fjármagni sem þegar hefur verið sett í félagið og því vel athugunarvert að setja örlítið meira fjármagn inn og auka þannig líkur á endurgreiðslu lána til hins opinbera.