Kærunefnd samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hefur fellt úr gildi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (FME) um meðferð atkvæðisréttar í Sparisjóði Hafnarfjarðar (SpH) hvað varðar tiltekinn einstakling. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Þann 20. febrúar síðastliðinn ákvað FME að tilteknir stofnfjáreigendur fengju ekki að fara með meira en 5% atkvæðisréttar í SpH. Ákvörðun sína byggði FME á því að ekki hefði verið farið eftir lögum um viðskipti með stofnfjárhlut SpH. Þau lög byggjast meðal annars á því að leitað sé heimilda FME af þeim aðilum sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. FME taldi að viðkomandi aðili og aðrir honum tengdir hefðu ekki veitt upplýsingar um fyrirætlun sína og myndað virkan eignarhlut.

Á grundvelli þeirra verndarhagsmuna sem liggi að baki ákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum þótti FME óumflýjanlegt að grípa til þess úrræðis að takmarka atkvæðisrétt í SpH. Vísaði FME meðal annars til þess að ónafngreindum sparisjóði hefði verið boðið allt að 72% stofnfjár til kaups og því benti allt til þess að verulegar breytingar hefðu átt sér stað á virkum eignarhlut sjóðsins. Gerði FME athugasemdir við fjárflæði af bankareikningi sem samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var í eigu Gaums ehf. Hafði kærandi fengið verulegar greiðslur af reikningnum. Hafði FME fengið staðfest að félag tengt honum hafði lagt til lánsfé til tilgreindrar lögmannsstofu vegna viðskipta með stofnfé. Höfðu greiðslur sem námu 1,65 milljarði króna verið lagðar inn á seljendur stofnfjár, þar á meðal kæranda. Kærandi málsins taldi hins vegar að FME gæti ekki svipt hann þeim atkvæðisrétti sem fylgdi stofnfjárhlutum.

Kærunefndin taldi að hér væri um stjórnsýsluákvörðun að ræða og því hvíldi á FME að sýna fram á það með óyggjandi hætti að kærandi hefði gerst aðili að virkum eignarhlut með öðrum stofnfjáraðilum. Taldi kærunefndin að FME hefði ekki sýnt fram á það með hvaða hætti, hvenær, hvernig eða með hverjum kærandi ætti að hafa myndað virkan eignarhlut í SpH. Sömuleiðis taldi kærunefndin verulega annmarka á málsmeðferð, meðal annars með tilliti til stjórnsýslulaga, auk þess sem FME hefði verið óheimil meðferð málsins meðan það var til meðferðar hjá öðru stjórnvaldi.

Í Viðskiptablaðinu í dag má lesa viðbrögð forstjóra fjármálaeftirlitsins við úrskurðinum.