Ef lögsókn nokkurra aðila, þar á meðal hárgreiðslukonunnar Deir Dos Santos auk annarra nær fram að ganga mun breska ríkisstjórnin þurfa að fá samþykki þingsins áður en hún getur framkvæmt úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Meirihluti bresku þjóðarinnar kaus í þjóðaratkvæðagreiðslu að landið skyldi ganga úr sambandinu þann 23. júní síðastliðinn.

Lögsóknin tekin alvarlega

Á þriðjudag sagði dómarinn Brian Leveson að „rétturinn mun taka þessa lögsókn mjög alvarlega og hraða úrskurði sínum.“

Telja þeir sem sækja málið að ekki sé nógu skýrt að breska ríkisstjórnin hafi rétt til að taka þessa ákvörðun, enda er ekki eiginleg stjórnarskrá í landinu sem veiti henni þennan rétt. Ef þeim tekst ætlunarverk sitt þá gætu þingmenn þurft að greiða atkvæði um málið og þá taka ákvörðun um hvort þeir framfylgja vilja meirihluta þjóðarinnar eða eigin sannfæringu.