Markaðir tóku vel við sér í dag í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabanka Íslands. Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,41% og hækkuðu bréf í Icelandair Group mest eða um 3,63%.

Velta á hlutabréfamarkaði nam ríflega 2,4 milljörðum króna og voru mest viðskipt með bréf Icelandair Group en velta með þau nam tæpum 800 milljónum. Næst mesta veltan var með bréf í N1 og nam hún ríflega 370 milljónum.

Annars voru viðskipti í dag með bréf í öllum félögunum nema Nýherja. Gengi hlutbréfa allra félaganna hækkaði í dag.

Velta á skuldabréfamarkaði nam tæpum 8,6 milljörðum króna og voru mest viðskipti með óverðtryggð bréf.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,3% í dag í 7,8 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,3% í 2,3 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,2% í 5,5 milljarða viðskiptum.