Miklar hækkanir Úrvalsvísitölunnar hafa verið talsvert í umræðunni að undanförnu enda er óalgengt að hlutabréfavísitölur hækki jafn mikið og Úrvalsvísitalan hefur gert á þessu ári. Í Vegvísi Landsbankans er bent á að ef skoðaðar eru hækkanir Úrvalsvísitölunnar í dollurum í samanburði við þróun erlendra vísitalna í dollurum þá kemur í ljós að hlutabréfamarkaðurinn hér á landi hefur hækkað næst mest allra í heiminum á þessu ári samkvæmt Bloomberg og er þá miðað við stöðuna í gær.

Í dollurum hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 59% á þessu ári en aðeins úkraínska hlutabréfavísitalan hefur hækkað meira en hækkun hennar nemur 88%. Á sama tíma hafa helstu hlutabréfavísitölur í heiminum hækkað eða lækkað lítillega segir í Vegvísi Landsbankans.