Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 2,3% í nóvember eftir að hafa lækkað kröftuglega í október. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um 63%. Markaðsvirði félaga í vísitölunni var rúmir 918 ma.kr. í lok nóvember. Gengi fimm félaga í vísitölunni lækkaði í mánuðinum. Mest lækkun var á gengi bréfa í Actavis (-8,2%), Og Vodafone (-6,9%) og Össuri (-3,3%). Gengi bréfa í Marel (+17,9%), Íslandsbanka (+13,2%) og Straumi (+10,3%) hækkuðu mest í nóvember.

"Samkvæmt okkar áætlun vega þrjú stærstu fyrirtækin í Úrvalsvísitölunni tæp 65% af vísitölunni. KB banki vegur þyngst (36,1%), næst koma Íslandsbanki (18,3%) og Actavis (10,1%). Hækkun á bréfum KB banka (+1,2%) og Íslandsbanka skýra því stærstan hluta af hækkun Úrvalsvísitölunnar í mánuðinum en á móti kemur lækkun á bréfum Actavis," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.