*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 17. janúar 2020 15:53

Úrvalsvísitalan í hæstu hæðum

VÍS hækkaði um 5,45% í 1,8 milljarða viðskiptum. Úrvalsvísitalan hefur ekki verið hærri frá hruni.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, OMXI10 hefur aldrei verið hærri eftir 1,31% hækkun í viðskiptum dagsins. Vísitalan stendur nú 2.199,79 stigum en rauf 2.200 stig fyrr í dag. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um 3,72%. Alls hækkaði gengi 12 félaga af 20 í viðskiptum dagsins, gengi 5 lækkaði á meðan þrjú stóðu í stað. 

Gengi bréfa VÍS hækkaði mest í dag eða um 5,45% í 1,8 milljarða viðskiptum en félagið birti í gær jákvæða afkomuviðvörun þar sem fram kom að áætlaður hagnaður síðasta árs yrði um hálfum milljarði hærri en í síðustu spá. Þá hækkaði gengi bréfa Sjóva um 2,9% í 191 milljóna viðskiptum og bréf Marel um 1,73% í ríflega 1,5 milljarða viðskiptum.

Bréf Marel höfðu um 11 í morgun hækkað um tæplega 3% og við fór markaðsvirði félagsins í fyrsta sinn yfir 500 milljarða króna en gaf eftir þegar leið á daginn og stendur nú í 491,1 milljarði.

Mest lækkun varð hins vegar á bréfum Regins eða 1,24% í 147 milljónum og þá lækkuðu bréf Kviku um 0,9% í 57 milljóna viðskiptum. 

Velta á markaðnum nam rúmlega 5,8 milljörðum króna en mest velta var með bréf VÍS og Marel. Viðskipti dagsins voru 217 talsins en þau voru einnig flest með bréf VÍS og Marel eða 42 og 40 talsins.