Gengi hlutabréfa Marel lækkaði um 1,36% í Kauphöllinni í dag í viðskiptum upp á rúmar 160 milljónir króna. Talsverð viðskipti voru með bréf Marel í vikunni en Landsbankinn seldi 5% hlut í félaginu í útboði fyrir rúma 5,2 milljarða króna. Mikil eftirspurn var eftir bréfum félagsins.

Á sama tíma hækkaði gengi hluitabréfa Icelandair Group um 0,17% og endaði gengi bréfanna í 5,91 krónu á hlut. Gengi bréfanna hefur ekki verið hærra síðan í mars árið 2009. Gengi hlutabréfanna var á þeim tíma á hraðri niðurleið í kjölfar bankahrunsins.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,09% í dag og endaði hún í 1.011 stigum. Vísitalan hefur síðustu tvo daga náð hæstu hæðum innan viðskiptadaganna.