Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni í marsmánuði námu 20.574 milljónum eða 935 milljónum á dag. Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland fyrir mars 2015.

Viðskiptin voru 46% minni en í febrúarmánuði þegar viðskipti með hlutabréf námu 1.721 milljón króna á dag. Hins vegar er þetta 16% hækkun á milli ára, en viðskipti í mars 2014 námu 808 milljónum á dag.

Mest voru viðskipti með bréf Icelandair Group (ICEAIR) 3.841 milljón, Marel (MARL) 2.687 milljónir, N1 (N1) 2.176 milljónir, VÍS (VIS) 1.948 milljónir og HB Granda (GRND), 1.862 milljónir. Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,5% á milli mánaða og stendur nú í 1.342 stigum.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 189 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 8,6 milljarða veltu á dag. Þetta er 10% hækkun frá fyrri mánuði, en viðskipti í febrúar námu 7,8 milljörðum á dag. Hins vegar er þetta 11% lækkun frá fyrra ári þegar viðskiptin námu 9,6 milljörðum á dag.