Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] stendur nánast í stað frá því í morgun við lokun markaða en hafði í allan dag sýnt rauðar tölur. Um tíma hafði Úrvalsvísitalan lækkað um allt að 0,8%.

Vísitalan stendur nú í 4.513 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Á myndinni hér til hliðar má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni.

Century Almuninum [ CENX ] hækkaði nokkuð undir lok dags eða um 5,2% sem gerir það að verkum að félagið hækkaði mest félaga í dag.

Þá hækkaði Icelandair Group [ ICEAIR ] eins og sjá má um 1,6% en hafði að vísu hækkað um sama gildi á hádegi og hreyfðist því lítið seinni part dags. Athygli vekur að félagið hækkar eftir fréttir af fjöldauppsögnum sem boðaðar hafa verið hjá félaginu en nánar verður kynnt um þær á morgun.

Velta með hlutabréf var um 1,9 milljarðar. Þar af voru um 560 milljónir með bréf í Glitni [ GLB ], 440 milljónir með bréf í Kaupþing [ KAUP ] og 230 milljónir með bréf í Landsbankanum [ LAIS ].

Krónan hefur það sem af er degi veikst um 3,6% en hafði á tímabili veikst um 4,1%.