Úrvalsvísitalan hefur hækkað duglega undanfarna tvo daga og er svo komið að hún nálgast óðfluga 4.000 stigin. Í gær hækkaði Úrvalsvísitalan um 1,77% en það voru Atorka (6,7%) og Landsbankinn (6,4%) sem hækkuðu mest. Úrvalsvísitalan hækkaði svo um 1,43% í dag en lokagildi hennar var 3.939 stig. Þau félög sem hækkuðu mest í dag voru Össur (4,3%), Landsbankinn (3,3%) og KB banki (2,2%).

Erfitt er að finna ástæður þessara miklu hækkana undanfarna daga. Greiningardeildir bankanna birtu afkomuspár í vikunni og er gert ráð fyrir mikilli hagnaðaraukningu. Mögulega hafa spárnar aukið enn á bjartsýni fjárfesta bendir Landsbankinn á í Vegvísi sínum.