Seðlabanki íslands ætlar að bjóða út ríkisbréf í tveimur flokkum, RIKB 09 0612 og 10 0317, næstkomandi fimmtudag fyrir allt að tíu milljarða króna í fyrrnefnda flokknum en fimm milljarða í þeim síðari.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.

Greiningardeild Kaupþings segir Seðlabankanna hafa gefið mikið út af ríkisbréfum á undanförnum mánuðum með það að markmiði að koma til móts við mikla eftirspurn erlendra fjárfesta eftir bréfunum.

„Eftir að vaxtamunur á gjaldeyrisskiptamarkaði hrundi fyrr á árinu fóru erlendir fjárfestar í auknum mæli að kaupa íslensk ríkisbréf til að næla sér í háa íslenska vexti,“ segir Greiningardeild Kaupþings en tekur fram að framboðið af ríkisbréfum var á þeim tímapunkti hins vegar fremur lítið og lækkaði ávöxtunarkrafan á bréfunum því allverulega.

Dræm þátttaka í síðasta útboði

Slæleg þátttaka var í síðasta útboði ríkisbréfa þegar sótt var eftir tilboðum fyrir allt að tíu milljarða í RIKB 09 0612 en einungis var tilboðum tekið fyrir 3,7 milljarða.

„Þetta gæti þó hafa verið góðs viti því líklegast hefur þessi dræma þátttaka komið til af því að vaxtamunur með gjaldeyrisskiptasamninga jókst á nýjan leik og erlendir fjárfestar hafa því snúið sér í auknum mæli aftur á þann markað til að næla sér í háa krónuvexti,“ segir í Hálffimm fréttum.

„Gjaldeyrisskiptamarkaðurinn er þó enn langt frá því að vera jafn skilvirkur og áður þrátt fyrir að nánast fullur vaxtamunur sé á styttri samningum en til tveggja vikna. Verður því áhugavert að fylgjast með hver þátttakan verður í útboðinu á fimmtudag og hvort að þorsti erlendra fjárfesta eftir ríkistryggðum íslenskum vöxtum sé enn til staðar.“