Heildareftirspurn eftir hlutabréfum fasteignafélagsins Regins, dótturfélags Eignarhaldsfélags Landsbankans, nam 10,3 milljörðum króna í útboði í gær og var 75% hlutur í félaginu seldur í gær fyrir 7.895 milljónum króna. Útboðsgengi er í samræmi við það 8,2 krónur á hlut.

Þetta er við lægri mörk þess sem væntingar voru um en í aðdraganda útboðs með bréfin var gefið út að verðbilið yrði frá 8,1 krónu á hlut til 11,9 á hlut og að söluandvirði 75% gæti numið á bilinu 7,9 til 11,6 milljörðum króna. Miðað við það yrði markaðsvirði alls hlutafjár Regins á bilinu 10,5 til 15,5 milljarðar króna.

Spákaupmenn keyptu á 9 til 9,5 krónur

Fram kom í netútgáfu Viðskiptablaðsins í gær að spákaupmenn hafi verið ragir við að bjóða hærra verð en 9 til 9,5 krónur á hlut í útboðinu í vikunni. Það er á bilinu 9,7% til tæplega 16% yfir útboðsgengi hlutabréfa Regins.

Miðað við niðurstöðu útboðsins í gær er útboðsgengi bréfa Regins 8,1% yfir væntu lágmarksverði en 31% undir væntu hæsta verði.

Fram kemur í tilkynningu frá Reginn að allir sem buðu verð á eða yfir útboðsgengi og tilgreindu hámarksverð á eða yfir útboðsgengi fá úthlutað hlutum. Tilboðum undir útboðsgengi hafi hins vegar verið hafnað.

Hluthafar í Regin verða tæplega eitt þúsund og mun hver þeirra eiga innan við 10% hlut. Eignarhaldsfélag Landsbankans heldur eftir 25% hlut í Reginn.

Á meðal helstu eigna Regins eru Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.

Fram kemur í tilkynningu frá Regin að fyrsti viðskiptadagur með hlutabréf félagsins í Kauphöll sé áætl,aður 2. júlí næstkomandi.