Seðlabanki Íslands áskilur sér rétt til að setja skorður við fjárhæðarþátttöku einstakra fjárfesta í gjaldeyrisútboði sem haldið verður á morgun. Bankinn heldur þá áttunda gjaldeyrisútboðið á árinu en eins og fyrr er það þrískipt. Annars vegar kaupir Seðlabankinn evrur og hins vegar selur hann evrur í skiptum fyrir krónur. Í útboðinu þar sem bankinn kaupir evrur fyrir krónur er fjárfestum boðið að fara fjárfestingarleiðina svokölluðu eða kaupa bréf í verðtryggðum löngum ríkisbréfaflokki.

Greining Íslandsbanka fjallar um útboðin í Morgunkorni í dag og greinir frá því að útboðsskilmálar í fjárfestingarleiðinni séu aðeins hertir. Er það eina breytingin frá fyrri útboðum. „Breytingin felst í að Seðlabankinn áskilur sér rétt til að setja skorður við fjárhæðarþátttöku einstakra fjárfesta í útboðinu. Er það gert með því að takmarka magn þess erlenda gjaldeyris sem fjárfestir getur boðið til sölu, með hliðsjón af ójafnvægi milli innlendra og erlendra kostnaðarþátta stærri fjárfestinga og því markmiði Seðlabankans að viðskipti samkvæmt afnámsáætluninni valdi ekki verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum eða tefli fjármálastöðugleika í tvísýnu. Með stærri fjárfestingu er átt við fjárfestingu sem nemur 20 milljónum EUR eða meira,“ segir í Morgunkorni.

Í október og nóvember voru um það bil 20 milljónir evra seldar aflandskrónueigendum fyrir tæpa 5 milljarða króna í hvorum mánuði.