Ekki er útlit fyrir að útflutningur verði drifkraftur hagvaxtar á næstu árum þrátt fyrir lágt raungengi krónunnar. Þetta segir í Peningamálum Seðlabankans sem kom út síðastliðinn miðvikudag. Útlit er fyrir að magnaukning í útflutningi vöru og þjónustu á þessu ári verði mjög lítil eða 0,4%. Ekki er heldur að vænta verulegs vaxtar í útflutningi á komandi árum.

Um 80% af vöruútflutningi koma frá álverksmiðjunum þremur og sjávarafurðarfyrirtækjum. Segir að framleiðslugeta álverksmiðja sé fullnýtt og útflutningsgeta sjávarútvegs takmarkist af ástandi fiskstofna og leyfilegum hámarksafla. „Jákvæð samkeppnisáhrif lágs raungengis skilar sér því takmarkað til skemmri tíma án fjárfestingar sem eykur framleiðslugetu útflutningsatvinnugreina.“