Tölvuleikjaútgáfa er helsti vaxtarbroddur útflutningstekna hér á landi og nam heildarverðmæti þeirra árið 2009 13,2 milljörðum króna, sem er sexföldun frá árinu 2005. Um 60% þessara tekna komu frá CCP og hefur Fréttablaðið eftir Hilmari Veigari Péturssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að þróun í útflutningi tölvuleikja sé hraðari á Íslandi en annars staðar.

Samkvæmt nýrri skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina á Íslandi veltu þessar greinar alls um 189 milljörðum króna árið 2009 og sköpuðu þær 9.731 ársverk. Útflutningstekjur af skapandi greinum árið 2009 námu um 24 milljörðum króna, 3% af heildarútflutningi. Þetta mun vera fyrsta kortlagning á umfangi skapandi greina á Íslandi.