Mikil styrking krónunnar á seinni hluta síðasta árs og auknar gengissveiflur á þessu ári hafa verið settar í samband við útgáfur jöklabréfa, segir greiningardeild Landsbankinn.

?Sambærileg bréf eru gefin út í ýmsum hávaxtamyntum svo sem nýsjálenskum dal og tyrkneskri líru. Útgáfan er fyrst og fremst drifin áfram af miklum vaxtamun, þ.e. háum vöxtum þessara gjaldmiðla samanborið við til dæmis dollarann eða evru. Það er engin spurning að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans og mikil lánsfjáreftirspurn voru helsta ástæða þess að jöklabréfaútgáfan hófst,? segir greiningardeildin.

Hún segir jöklabréfin hafa skilað verulega neikvæðri ávöxtun það sem af er ári og líklega er það ein helsta ástæða þess að lítið hefur borið á nýjum útgáfum undanfarið.

?Einnig er hugsanlegt að markaðurinn sé mettaður sem stendur, en útistandandi jöklabréf svara til um það bil 27% af vergri landsframleiðslu síðasta árs. Þetta er svipað hlutfall og sést hefur til dæmis á Nýja Sjálandi þegar að útgáfan þar hefur verið í hámarki,? segir greiningardeildin.

Vaxtamunur gæti farið lækkandi

?Ef Seðlabanki Íslands fer að lækka vexti næsta vor, eins og við reiknum með, þá má búast við því að vaxtamunur á milli krónu og helstu viðskiptamynta heimsins fari lækkandi. Eftir vaxtahækkun evrópska seðlabankans í dag er stýrivaxtamunur gagnvart evru 10,5% en hann var aðeins 7,5% þegar fyrstu jöklabréfin litu dagsins ljós í ágúst í fyrra.

Á þessum tíma hefur vaxtamunur evru og nýsjálensks dals lækkað úr 4,75% í 3,75%, en munur tyrkneskra og evrópskra stýrivaxta hefur aftur á móti að aukist úr 12,25% í 14% á sama tíma.

Erlendir fjárfestar muni ekki flýja

Þessi samanburður bendir ekki til þess að ástæða sé til að óttast það að allir erlendir fjárfestar sem eru að ná sér í vaxtamun með því að fjárfesta í krónum muni flýja landið við fyrstu merki vaxtalækkana hjá Seðlabankanum. Vaxtamunurinn mun að öllum líkindum halda áfram að vera álitlegur í augum slíkra aðila á næstu árum,? segir greiningardeildin.