*

miðvikudagur, 20. október 2021
Erlent 31. janúar 2020 10:38

Útgangan í höfn en markmiðin ekki

Lítið mun breytast á þessu ári þrátt fyrir að formleg útgönga Bretlands úr ESB gangi loks í gegn í dag.

Júlíus Þór Halldórsson
Þversagnakennt andrúmsloft er sagt ríkja í Brussel þessa dagana, þar sem breskir embættismenn og erindrekar eru nú formlega kvaddir, þrátt fyrir að fyrir liggi mikil og flókin samskipti við þá næstu árin.
Aðsend mynd

Hin umdeilda og af mörgum langþráða útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, sem tröllriðið hefur stjórnmálaumræðu eyríkisins frá því að hún var naumlega samþykkt í þjóðaratkvæði sumarið 2016, gengur loks formlega í gegn á morgun, 1.317 dögum seinna.

En þótt þeim mikla lögformlega áfanga, sem ítrekað var frestað, verði loks náð nú um mánaðamótin breytist lítið sem ekkert. Samkvæmt útgöngusamningi Boris Johnson forsætisráðherra (sem er að miklu leyti óbreyttur frá samningi fyrirrennara hans, Theresu May) er næsti áfangi svokallað millibilsástand (e. transition period), sem felur í sér áframhaldandi veru Bretlands í innri markaði Evrópu næstu 11 mánuði, eða út árið.

Johnson þvertekur fyrir framlengingu
Bretar missa hins vegar allan þátttökurétt í hinum ýmsu stofnunum, ráðum og stjórnum sambandsins – og hafa því ekkert að segja um lagasetningu og framkvæmd Evrópureglna lengur – en verða þó áfram bundnir af öllum lögum og reglum sambandsins meðan á millibilsástandinu stendur, auk þess að þurfa áfram að greiða í sameiginlega sjóði þess.

Samkvæmt útgöngusamningnum er millibilsástandið framlengjanlegt um allt að tvö ár. Slíkt krefst samþykki beggja aðila, og Johnson hefur þegar látið hafa eftir sér að ekki muni koma til þess. Ekki þarf hins vegar að leita langt eftir sambærilegum yfirlýsingum um frestun útgöngunnar sjálfrar, sem Johnson gat svo ekki staðið við þegar á hólminn var komið, eftir að þingið samþykkti lög sem skylduðu hann til frestunar. Bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Michel Barnier, yfirsamningamaður þess í málefnum útgöngunnar, hafa sagt tímarammann verulega þröngan.

Áhrifaleysið gæti reynst atvinnulífinu dýrkeypt
Í umfjöllun Financial Times er bent á að millibilsástandið verði breskum fyrirtækjum enn þyngra en það óvissuástand um framtíðarskipan verslunar við meginlandið sem plagað hefur atvinnulífið frá því að ferlið hófst.

Við það bætist svo hvarf breskra fulltrúa úr stofnunum á borð við Efnastofnun Evrópu (European Chemicals Agency) og Evrópsku bankastofnunina (European Banking Authority), sem hafa mikil áhrif á reglugerðar- og þar með rekstrarumhverfi breskra fyrirtækja.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Brexit