Gengi hlutabréfa Brims hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar í dag, um 3,85% í 481 milljónar króna viðskiptum. Heildarvelta á aðalmarkaði nam 5,3 milljörðum en gengi úrvalsvísitölunnar OMXI10 lækkaði um 1,20% í viðskiptum dagsins og stendur fyrir vikið í 3.332,57 stigum.

Næst mest hækkaði gengi bréfa Síldarvinnslunnar, um 2,06%, og gengi bréfa Eikar fasteignafélags hækkaði um 1,72%.

Bréf Icelandair lækkuðu mest í viðskiptum dagsins, um 2,34%. Þá lækkaði gengi bréfa Marel um 2,09% og gengi bréfa Sýnar um 1,74%.

Mest var velta með bréf í Arion banka en viðskiptin námu 1,6 milljörðum króna. Þá nam velta með bréf Eimskips 662,3 milljónum og velta með bréf Síldarvinnslunnar 287,8 milljónum.

Á First North markaði var mest velta með bréf Play, en gengi bréfanna lækkaði um 0,81% í 52 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa Solid Clouds hækkaði um 5% í 235 þúsund króna viðskiptum og bréf Hampiðjunnar hækkuðu um 0,86% í einnar milljónar króna viðskiptum.