*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Innlent 21. janúar 2021 19:04

Útgerðir lögðu 635 milljónir í félag 365

Huginn og eigendur útgerðarinnar Eskju eru óbeinir hluthafar í Streng, meirihlutaeiganda Skeljungs, í gegnum félag sem 365 stýrir.

Ingvar Haraldsson
Hjónin Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir aðaleigandi 365 og Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Strengs og Skeljungs.
Eggert Jóhannesson

Útgerðarfélagið Huginn ásamt aðaleigendum útgerðarfélagsins Eskju , þeim Þorsteini Kristjánssyni og Björk Aðalsteinsdóttur, eru meðal eigenda fjárfestingafélagsins Strengs í gegnum félagið M25 Holding ehf., ásamt 365 hf. 

Strengur eignaðist fyrr í janúar meirihluta í Skeljungi með 50,06% hlut. Með hlutafjáraukningu sem dagsett er 1. desember lagði Hólmi ehf., í eigu Þorsteins og Bjarkar, 485 milljónir króna í M25 Holding, Huginn 150 milljónir króna og Dida Holding ehf. í eigu Jóns Skaftasonar, framkvæmdastjóra Strengs, 11,5 milljónir króna. Á móti lagði 365 til andvirði ríflega 1,4 milljarða króna, með hlutabréfum í Skeljungi og fasteignaþróunarfélaginu Kaldalóni. 

Strengur boðaði fyrst yfirtökutilboð í Skeljungi í byrjun nóvember. Í gögnum í tengslum við yfirtökutilboð Strengs á Skeljungi sem stóð yfir frá 6. desember til 4 janúar var ekki fjallað um aðkomu útgerðarfélaganna, en fram kom að 365 eða dótturfélag í eigu 365 myndi eiga 38% hlut í Streng. Miða við þá skiptingu má áætla að óbeinn eignarhlutur Hólma í Skeljungi sé ríflega 4% og hlutur Hugins ríflega 1%.

Sjá einnig: Strengur eignast meirihluta í Skeljungi

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum er stærsti hluthafi Hugins með 48% hlut. Stærstu hluthafar Vinnslustöðvarinnar eru Seil ehf., í eigu Kristínar Elínar Gísladóttir og Haraldar Sveinbjörns Gíslasonar, með 42% hlut og FISK Seafood í eigu Kaupfélags Skagfirðinga með 32% hlut. Einar Þór Sverrisson er bæði stjórnarformaður Hugins og 365. 

Aðrir hluthafar í Streng eru RES II, í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar, Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur og breska fjárfestingafélagsins No. 9 Investment með 38% hlut og RPF ehf., í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar, og Þórarins Arnars Sævarssonar, sem eru einnig meðal eigenda fasteignasölunnar RE/MAX, með 24% hlut. Þá eru eigendur Strengs einnig meðal stærstu hluthafa í Kaldalóni.

Kaup Strengs á hlutum í Skeljungi voru að stórum hluta fjármögnuð með lánum frá Arion banka og Íslandsbanka. Strengur vill gera miklar breytingar á starfsemi Skeljungs þar sem orkuskipti séu framundan og bensínsala á útleið, meðal annars selja eignir til að greiða til baka lán fyrir kaupunum.

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér


Stikkorð: 365 Skeljungur Strengur yfirtökutilboð RES II RES 9