Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs tæpum 8 milljörðum króna í september sem er ríflega 40% aukning frá fyrra mánuði.

Þar af voru tæplega 5,6 milljarðar vegna almennra lána og tæpir 2,4 milljarðar vegna leiguíbúðalána.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Þar kemur fram að heildarútlán sjóðsins námu rúmum 22,3 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi og hafa heildarútlán í einum fjórðungi ekki verið meiri síðan á öðrum ársfjórðungi 2004.

Þar með nema heildarútlán sjóðsins rúmum 47 milljörðum það sem af er árinu 2008.

Meðalútlán almennra lána námu um 11,3 milljónum króna í september og jukust lítillega frá fyrra mánuði eða um 3,5%.