Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að að lækka bindiskyldu um 1,5 prósent auk þess sem hún ákvað að halda meginvöxtum bankans óbreyttum. Nefndin tók ákvörðun um að hækka bindiskylduna tímabundið í september úr 2% í 4% til að auðvelda Seðlabankanum stýringu á lausu fé bankakerfisins í tengslum við gjaldeyriskaup Seðlabankans og losun fjármagnshafta. Bindiskyldan er nú komin niður í 2,5% frá og með næsta bindiskyldutímabili sem hefst 21. desember næstkomandi til að milda lausafjáráhrif afhendingar slitabúa gömlu bankanna á stöðugleikaframlögum.

Ferlið gengur mjög hratt

Már segir að ferlið varðandi uppgjör slitabúanna sé að ganga mjög hratt og að útlit sé fyrir að töluverðar greiðslur á stöðugleikaframlagi komi til jafnvel fyrir áramót og snemma á næsta ári. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur samþykkt nauðasamning sem slitastjórn Glitnis lagði fyrir dóminn í síðustu viku. Næstu skref eru að fá samninginn sam­þykktan í Bandaríkjunum og að því loknu verður Seðlabankinn að samþykkja undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál.

Már segir að hann búist við því að slitastjórn Glitnis muni greiða stöðugleikaframlög fyrir áramót og ef það gengur eftir fær slitabúið í framhaldinu undanþágu frá Seðlabankanum. Nauðasamningsfrumvarp Kaupþings var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir viku og nauðasamningsfrumvarp Landsbankans verður tekið fyrir 15. desember.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .