*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 24. október 2019 10:43

Útlit fyrir hægari vöxt einkaneyslu

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur launavísitalan hækkað um 4,2% undanfarna 12 mánuði.

Ritstjórn
hagvísar benda til þess að hægja muni á einkaneyslu næstu misserum.

„Nokkuð hefur hægt á vexti kaupmáttar launa síðastliðna mánuði og útlit er fyrir að miklu vaxtarskeiði kaupmáttar launa sé lokið í bili. Hægari vöxtur kaupmáttar er ein meginástæða þess að við gerum ráð fyrir hægari vexti einkaneyslu á næstu árum.“ 

Þannig hefst umfjöllun greiningar Íslandsbanka frá því í morgun um þróun launa og kaupmáttar síðastliðin misseri.  En samkvæmt nýlegum tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitala í september um 0,5% frá fyrri mánuði. Undanfarna 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,2% og hefur árstakturinn ekki mælst lægri í níu ár.

Nokkur óvissa er um þróun einkaneyslu á komandi mánuðum í hagspám og má því leiða líkum að því að greindendur rýni vel í tölur um kaupmátt og laun þessi misserin. 

„Þróun kaupmáttar launa helst talsvert í hendur við einkaneyslu og hefur þróun þessa tveggja stærða verið býsna áþekk síðastliðin áratug eins og sést á myndinni. Í raun væri eðlilegt að einkaneysla yxi öllu hraðar en kaupmáttur þar sem fyrrnefnda stærðin ræðst einnig af fólksfjölgun á meðan kaupmáttarþróun endurspeglar neyslugetu á hvern einstakling,“ segir í greiningu Íslandsbanka og jafnframt: 

„Útlit er fyrir hægari einkaneysluvöxt á næstu misserum og benda aðrir hagvísar einnig til þess. Þegar kortaveltutölur eru skoðaðar má sjá að heimilin eru þegar farin að halda að sér höndum. Einnig er þegar farið að hægja á fólksfjölgun og búast má við því að hægja muni enn frekar á fólksfjölguninni eftir því sem dregur úr spennu á vinnumarkaði. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar teljum við að einkaneysluvöxtur verði um 2,0% á þessu ári eftir að hafa mælst 4,8% árið 2018.“