Þegar hafa a.m.k. 73 skemmtiskip bókað komu til Reykjavíkur í sumar með yfir 50.000 gesti. Stór hluti fer einnig á aðrar hafnir um landið. Sem dæmi má nefna að 57 skip hafa bókað komu til Akureyrar og um 20 til Ísafjarðar.

Í næstu viku fer fram á Miami í Bandaríkjunum alþjóðleg kaupstefna og sýning um viðskipti skemmtiskipa (cruise). Samtökin "Cruise Iceland" undir leiðsögn Ferðamálaráðs standa að sameiginlegum sýningarbás fyrir Ísland, Grænland og Færeyjar á sýningunni.

Auk samtakanna og Ferðamálaráðs verða hafnirnar á Seyðisfirði, Húsavík, Akureyri, Ísafirði og Reykjavík með fulltrúa á sýningarbásnum. Þá eru fulltrúar ferðaskrifstofanna Atlantic og Iceland Travel einnig á básnum.

Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs telur að þessi árangur sé uppskera markvissra markaðsaðgerða undanfarinna missera, þar sem margir hafa lagt hönd á plóg. "Það er einnig athyglisvert að næsta sumar munu um 10 skip skipta um farþega hér á landi sem þýðir að nýir farþegar koma um Keflavíkur flugvöll og hinnir fara þaðan. Þá sýna kannanir að um 15-20% farþega í skemmtiskipum koma aftur til áfangastaðarins með flugi síðar," segir Ársæll í frétt á vef Ferðamálaráðs.