Alls voru 101 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta í nóvember síðastliðnum samanborið við 80 fyrirtæki á sama tíma í fyrra. Gjaldþrot jukust því um 26% í nóvember frá fyrra ári. Fyrstu 11 mánuði síðasta árs voru 877 fyrirtæki úrskurðuð gjaldþrota. Á sama tímabili árið 2009 höfðu 829 fyrirtæki hlotið þau örlög. Þetta jafngildir aukningu um 5,8% milli ára. Hagstofa Íslands birti þessar tölur um gjaldþrot og nýskráningar nú í morgun.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um málið. Segir að allt útlit sé nú fyrir að nýtt met verið slegið á árinu 2010 hvað hvarðar fjölda gjaldþrota og að fyrra met frá árinu 2009 verði slegið út.

„Það ár voru 910 fyrirtæki úrskurðuð gjaldþrota sem var það mesta sem sést hefur undanfarna áratugi. Óhætt er að segja að flestir hafi í upphafi síðasta árs vonast til þess að það met yrði ekki slegið og að birta tæki til í atvinnulífinu. Þær vonir hafa því miður brugðist enda hefur fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja gengið mun hægar fyrir sig en vonast var til, efnahagsbatanum hefur seinkað og lítið hefur verið um fjárfestingar í atvinnulífinu. Horfur fyrir árið eru þó bjartari og gert er ráð fyrir að hagvöxtur taki við af samdrætti á þessu ári og því má því reikna með að fjöldi gjaldþrota fyrirtækjum fari fækkandi að sama skapi,“ segir í Morgunkorni.

Erfiðast í byggingariðnaði

„Líkt og að undanförnu voru gjaldþrot tíðust í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð í nóvember en alls voru 26 fyrirtæki úrskurðuð gjaldþrota í mánuðinum í þeirri atvinnugrein. Er þetta nánast sami fjöldi og var úrskurðaður gjaldþrota í þessari grein í sama mánuði í fyrra en þá voru 28 fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð úrskurðuð gjaldþrota. Fyrstu 11 mánuði ársins hafa 230 fyrirtæki í þessum greinum verið úrskurðuð gjaldþrota sem er 26% allra fyrirtækja sem gjaldþrota hafa orðið á árinu. Þetta er sami fjöldi og var fyrir sama tímabil fyrra árs.“