Salt Investment, félag í eigu Róberts Wessmann, hefur til skoðunar kaup á allt að 20% hlut í Capacent í samstarfi við Glitni. "Þetta er í raun einungis ein af nokkrum fjárfestingum sem við höfum verið að skoða," segir Árni Harðarson, forstjóri Salt Investment. "Við erum núna í áreiðanleikafasa og það hefur enginn bundið sig af einu að neinu. Það hefur ekki einu sinni verið njörfað nákvæmlega niður hve stóran hlut við myndum kaupa. Capacent er að leita eftir hlutafjáraukningu hjá sér og okkur finnst þetta mjög áhugavert. En við erum ekki komnir á þann stað að við getum sagt af eða á með þetta verkefni," segir Árni.

Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst færu kaupin fram með hlutafjáraukningu hjá Capacent og Salt Investment og Glitnir myndu greiða um 500 milljónir króna í reiðufé fyrir 20% hlut í Capacent. Sú fjárhæð yrði síðan nýtt til kaupa á öðrum fyrirtækjum á erlendum mörkuðum.

Árni segir að Capacent hafi leitað margra leiða til þess að efla sína starfsemi. "Þeir eru á kafi í bullandi útrás og þetta er hluti af því ferli."

Hann segir að ef af þessu yrði myndi Salt Investment greiða fyrir hlut í Capacent með peningum.

Varðandi óróa á fjármálamörkuðum segir Árni að stjórnendur fyrirtækja séu nú fyrst og fremst að reyna að halda sjó fyrsta ársfjórðunginn. "Það eru flestir að vona að það fari allt að rétta úr kútnum á vormánuðum. Ég held að það sé mjög alvarlegt ef þessari dýfu fer ekki að linna því það eru mörg félög sem bera þetta illa til lengdar. Ef þessu fer ekki að linna þá fer dýfan að hafa mun meiri áhrif út frá sér," segir Árni