Eigendur TripCreator hafa sett 200 milljónir króna inn í félagið til að fjármagna það þangað til að útrás þess hefst, að sögn Steins Loga Björnssonar stjórnarformanns. Viðræð­ur standa yfir við innlenda og erlenda fjárfesta um fjármögnun á markaðssókn fyrirtækisins.

TripCreator rekur vefsíðu þar sem boðið er upp á alhliða skipulagningu ferðalaga. Notendur síðunnar fá tilboð í flug, gistingu, bílaleigubíl og fleira út frá upplýsingum um lengd ferðalags og þá áfangastaði sem fólk vill skoða. Upphaflega var lausnin aðeins í boði fyrir Ísland en nú er búið að bæta 5-10 löndum til viðbótar ásamt því sem lausnin hefur verið þróuð frekar.

Framundan er áhersla á markaðssetningu, sem Steinn segir að sé mjög kostnaðarsöm. Því sækist fyrirtækið eftir 500-600 milljónum króna frá íslenskum fjárfestum og enn meiru frá erlendum.