Úr úttekt Viðskiptablaðsins á skuldaþróun Reykjavíkurborgar, sem birtist þann 17. september 2015:

Óhætt er að segja að skuldaþróun Reykjavíkurborgar frá árinu 1981 sýni glöggt að reykvískir stjórnmálamenn hafa haft tilhneigingu til að eyða um efni fram. Undanfarinn áratug eða svo hefur skuldasöfnun þeirra fyrir hönd borgarbúa verið gríðarleg, þó að tekist hafi að höggva nokkuð í skuldirnar allra seinustu ár. Skuldir Reykjavíkurborgar eru eftir sem áður 26-faldar að raungildi í dag, borið saman við árið 1986. Það ár voru skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar um 10,5 ma. að núvirði. Í dag nema þessar skuldir tæpum 273 ma. Þetta er að frátöldum lífeyrisskuldbindingum (sem nema um 20 ma.) og ábyrgðum borgarinnar gagnvart þriðju aðilum (sem nema um 180 ma.). Þessi þróun er ekki í neinu samræmi við íbúaþróun, en íbúum hefur fjölgað um 44% á tímabilinu.

Munurinn er raunar enn meiri ef skuldir ársins 1986 eru bornar saman við skuldir borgarinnar þegar mest lét í lok árs 2009, þegar þær námu tæpum 370 ma. króna. Munurinn þar á er 36-faldur.

Skuldir lækkuðu framan af

Af eldri ársreikningum má ráða að skuldaþróun var heldur hagstæð frá upphafi níunda áratugar og fram á seinni hluta áratugarins. Frá árinu 1981 og fram til 1986 voru skuldir borgarinnar lækkaðar um 11,8 ma. króna, eða úr rúmum 22,3 ma. í rúma 10,5 ma. Má segja að borgin hafi verið nær skuldlaus á þeim tíma, að minnsta kosti í samanburði við skuldastöðuna nú.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta náglast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .