Radio Iceland, ný útvarpsrás á ensku sem miðuð er fyrir erlenda ferðamenn, hóf útsendingar á hádegi í dag. Stofnandi rásarinnar er Adolf Ingi Erlendsson en hann er þjóðkunnur íþróttafréttamaður.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setti stöðina í loftið og var síðan fyrsti viðmælandinn ásamt Ólöfu Ýrr Atladóttur, ferðamálastjóra.

Rásin sendir út á tíðninni 89,1 á höfuðborgarsvæðinu og 97,7 á Akureyri fyrstu dagana, en á næstu vikum verður sendum fjölgað og í næsta mánuði verður hægt að hlusta á stöðina nánast um allt land.

Sagt var frá því á vb.is í nóvember síðastliðnum að Adolf Ingi hefði stofnað hlutafélag um rekstur rásarinnar en þá var verkefnið á frumstigi.