Væntingavísitala Gallups lækkaði í mars frá fyrri mánuði og mælist 57,8 stig. Þó er léttara yfir landsmönnum nú en fyrir ári síðan. Frá því að kreppa skall á hefur svartsýni verið ríkjandi og vísitalan lægst farið í 19,5 stig og hæst í 69,9 stig. Vísitalan mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins og er á bilinu 0-200. Ef hún er yfir 100 stigum eru fleiri bjartsýnir en svartsýnir. Greining Íslandsbanka fjallar um væntingavísitöluna í dag og segir ljóst að landinn á enn verulega langt í land með að teljast bjartsýnn á ástandið.

Umfjöllun greiningar Íslandsbanka:

Þrátt fyrir að léttara sé yfir landanum nú í mars en á sama tíma í fyrra er ljóst að hann á enn verulega langt í land með að teljast vera bjartsýnn á ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar. Þetta má sjá af Væntingavísitölu Gallup sem birt var nú í morgun en gildi hennar mældist 57,8 stig nú í marsmánuði og lækkar jafnframt lítillega, eða um 2,1 stig, frá því í febrúar. Frá því að kreppan skall á hefur vísitalan hæst farið upp í 69,9 stig sem var í ágúst síðastliðnum, en lægst hefur hún mælst 19,5 stig sem var í ársbyrjun 2009. Sem kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins, og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir. Er því ljóst að mun fleiri Íslendingar eru svartsýnir en bjartsýnir um þessar mundir.

Flestar undirvísitölur lækka

Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar, að mati á atvinnuástandinu undanskildu, lækkuðu á milli febrúar og mars. Þannig lækkuðu væntingar íslenskra neytenda til aðstæðna í efnahags-og atvinnumálum þjóðarinnar eftir 6 mánuði um 3,0 stig og mælist sú vísitala nú 88,3 stig. Mat á núverandi ástandi lækkaði mun minna í stigum talið, eða um 0,7 stig, en sú vísitala mælist aðeins 12,0 stig. Mest var lækkunin á vísitölunni sem mælir mat á efnahagslífinu en hún lækkar um heil 8,1 stig milli mánaða og mælist nú 49,8 stig. Á hinn bóginn hækkar sú vísitala sem mælir mat á atvinnuástandinu lítillega, eða sem nemur um 1,9 stig, og mælist hún nú 62,0 stig.