Actavis hefur fengið samþykki bandarísku matvæla- og lyfjastofnunar til að markaðssetja þvagfæralyfið Finasteride í Bandaríkjunum og er sala lyfsins nú þegar hafin. Actavis hefur þar með markaðssett fimm ný samheitalyf í Bandaríkjunum í ár, af þeim 18-20 sem áætlað er að markasett verði á árinu 2007 segir í frétt félagsins.


Finasteride, sem er í styrkleikanum 5 mg í töfluformi, er samheitalyf frumlyfsins Proscar® frá frumlyfjafyrirtækinu Merck, en lyfið er notað við góðkynja stækkun í blöðruhálskirtli. Actavis er í hópi fimm samheitalyfjafyrirtækja sem hafa markaðssett lyfið, en einkaleyfið rann út í júní 2006.

Árleg sala lyfsins í Bandaríkjunum nam um 364 milljónum Bandaríkjadala (23 milljörðum króna), miðað við mars 2007, skv. upplýsingum frá IMS Health data.

Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri Actavis, segir í frétt: "Markaðssetning Finasteride er góð viðbót við lyfjaúrval okkar í Bandaríkjunum. Mikilvægt er að geta boðið öll stærstu lyfin sem falla af einkaleyfi og að hafa sem breiðast úrval lyfja. Þar hefur okkur tekist vel til og á seinni hluta ársins munum við sjá aukinn fjölda markaðssetninga lyfja í Bandaríkjunum."