Bresk stjórnvöld gripu til aðgerða í dag til þess að tryggja breska innlánaeigendur vegna hruns íslenska bankakerfisins.

Stjórnvöld í London vöruðu íslensk stjórnvöld jafnframt við því að bæta ekki þeim sparifjáreigendum sem tapa fé á hruninu skaðann. Jafnframt voru innlán Kaupthing Edge seld til hollensks fjármálafyrirtækis.

Fram kemur í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar að um 300 þúsund breskir sparifjáreigendur sem áttu innlán í Icesave-reikningi Landsbankans hefðu orðið fyrir barðinu á því að fyrstu skrefin voru tekin í átt að þjóðvæðingu bankans.

Ljóst er að djúpstæður ótti er meðal þessa fólks um að það hafi tapað því fé sem það treysti Landsbankanum fyrir.

Óttinn hefur farið vaxandi vegna þess að ljóst þykir að íslensk stjórnvöld hafi með aðgerðum sínum undanfarið sent erlendis þau skilaboð að varnarlínan verði fyrst og fremst dregin um innlendar skuldbindingar bankageirans og róið verði lífróðri til þess að tryggja eðlilega virkni fjármálakerfisins.

Þessi þróun varð til þess að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, lýsti því yfir í samtali við Breska ríkisútvarpið, BBC, að innistæður þeirra sem eiga meira 50 þúsund sterlingspund á reikningum Icesave verði tryggðar.

Jafnframt hafa allar eignir Landsbankans á Bretlandseyjum verið frystar þangað til að framtíð bankans liggur fyrir og staða skuldbindinga bankans liggja fyrir.

Í þessu samhengi hefur Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, lýst því yfir að íslensk stjórnvöld verði lögsótt þannig að tryggja megi að innistæðueigendur hjá Landsbankanum fái fé sitt til baka.

Hér er um stórfrétt að ræða svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Fyrsta milliríkjadeilan vegna hinnar djúpstæðu lánsfjárkreppu virðist vera í uppsiglingu miðað við þau ummæli sem látin hafa verið falla undanfarið.

Sem kunnugt er lét Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, þau orð falla í Kastljósi í íslenska ríkissjónvarpinu í gær að aðgerðir stjórnvalda hér á landi miðuðu að því að verja þjóðarhag og ekki yrði staðið við neinar skuldbindingar sem „óreiðumenn” hafa efnt til á alþjóðavettvangi á undanförnum misserum.