Valitor ætlar að flytja höfuðstöðvar sínar af Laugavegi 77 í nýtt húsnæði við Dalshraun 3 í Hafnarfirði á mánudag í næstu viku. Fram kemur í tilkynningu frá Valitor að þar muni öll starfsemi fyrirtækisins framvegis verða hér á landi. Valitor rekur jafnframt tvær starfsstöðvar í Danmörku og í Bretlandi. VB.is greindi frá því í mars á þessu ári að sjóður á vegum Gamma hafi keypt höfuðstöðvar Valitor við Laugaveg.

Þá segir í tilkynningunni að í nýju höfuðstöðvunum í Hafnarfirði verði lögð áhersla á vinnuhollustu og vistvæn sjónarmið.

Umtalsvert hagræði hlýst af flutningunum enda er húsnæðið í Hafnarfirði sniðið að starfsemi Valitor og nýjum áherslum í þjónustu og vöruþróun.

Nýtt stjórnskipulag tekur gildi hjá fyrirtækinu samhliða flutningunum og er starfseminni skipt í sjö svið: Markaðs- og viðskiptaþróun; Áhættustýringu, fjármál og mannauð; Vöruþróun og nýsköpun; Þjónustu og rekstur; Alþjóðasvið; Fyrirtækjasvið og Kortaútgáfusvið.

Hjá Valitor starfa 155 manns. Engum verður sagt upp í tengslum við breytinguna, samkvæmt upplýsingum frá Valitor.