*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 5. júlí 2021 11:45

Valka sameinast Marel

Marel stefnir að því kaupa 100% hlut í Völku en yfir 90% hluthafa Völku hafa samþykkt kaupin.

Ritstjórn
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel og Helgi Hjálmarsson, stofnandi Völku.
Aðsend mynd

Marel hefur skrifað undir samning um kaup á Völku ehf., ís­lensku há­tækni­fyrir­tæki sem fram­leiðir fisk­vinnslu­lausnir fyrir al­þjóða­markað. Þetta kemur fram í til­kynningu.

Marel stefnir að því að kaupa 100% hlut í Völku. Yfir 90% hlut­hafa Völku hafa sam­þykkt samning um kaupin, og verður eftir­standandi hlut­höfum boðið að selja sinn hlut á sömu kjörum. Kaup­verðið er greitt 50% með reiðu­fé og 50% í hluta­bréfum Marel, fyrir utan minni hlut­hafa sem býðst greiðsla með 100% reiðu­fé. Selj­endur sem fá hluta­bréf í Marel skuld­binda sig að eiga þau í 18 mánuði frá kaupunum.

Kaupin eruð háð hefð­bundnum fyrir­vörum, þ.m.t. fyrir­vara um sam­þykki sam­keppnis­yfir­valda. Á­ætlað er að gengið verði frá kaupunum síðar á árinu. Helgi Hjálmars­son, stofnandi og for­stjóri Völku mun taka við stöðu for­stöðu­manns vinnslu­lausna og halda á­fram að vinna að ný­sköpun hjá Marel.

Sam­eigin­legt mark­mið að um­bylta fisk­vinnslu

Valka og Marel deila sömu sýn og mark­miði að um­bylta fisk­vinnslu með því að hanna og þróa sjálf­bærar há­tækni fisk­vinnslu­lausnir í nánu sam­starfi við við­skipta­vini. Kaupin munu styrkja vöru­fram­boð Marel á heildar­lausnum og auka stærðar­hag­kvæmni til þess að þjónusta við­skipta­vini betur. Miðlun þekkingar og reynslu hjá sam­eigin­legu teymi mun hraða ný­sköpun til að þjónusta betur þær öru breytingar sem eiga sér stað í sjávar­út­vegi og markað­s­um­hverfi. Fyrir­tækin sjá mikla mögu­leika fyrir vörur og tækni Völku í öðrum prótíniðnuðum.

Valka er há­tækni­fyrir­tæki sem fram­leiðir fisk­vinnslu­lausnir fyrir hvít­fisk og lax. Helgi Hjálmars­son stofnaði fyrir­tækið árið 2003 og hefur síðan þá kynnt til sögunnar fjöl­margar ný­stár­legar fisk­vinnslu­lausnir sem hefur verið vel tekið af markaðs­aðilum. Vöru­fram­boð fé­lagsins inni­heldur meðal annars vatns­skurðar­vélar, snyrti- og flokkunar­línur. Valka er með um 17 milljónir evra í árs­tekjur, en hjá fé­laginu starfa sam­tals 105 starfs­menn á Ís­landi og í Noregi.

Komin aftur heim

„Við erum spennt fyrir því að sam­einast Völku, fram­leiðanda há­tækni fisk­vinnslu­lausna. Valka er mjög sterkt tækni­lega og hefur góða inn­sýn í þarfir við­skipta­vina í sjávar­út­vegi. Saman munu fyrir­tækin byggja á því besta frá báðum, auka stærðar­hag­kvæmni, hraða vöru­þróun og styrkja sam­einað vöru­fram­boð til þess að geta boðið við­skipta­vinum fram­úr­skarandi lausnir á þessum vaxandi markaði," segir Guð­björg Heiða Guð­munds­dóttir, fram­kvæmda­stjóri fisk­iðnaðar Marel, i til­kynningunni.

„Stofnun Völku árið 2003 var stórt skref fyrir mig eftir níu frá­bær ár í Marel þar sem ég vann að mörgum spennandi ný­sköpunar­verk­efnum," segir Helgi Hjálmars­son, stofnandi og fram­kvæmda­stjóri Völku, í til­kynningunni. „Það mætti segja að með sam­einingu Marel og Völku séum við komin aftur heim, en fyrir­tækin deila sömu sýn og ást­ríðu fyrir að þróa há­tækni vinnslu­lausnir sem gjör­bylta því hvernig fiskur er unninn á sjálf­bæran hátt.

Ég er virki­lega spenntur að yfir­færa tækni Völku yfir í aðra iðnaði þar sem við sjáum mikil tæki­færi. Ég er viss um að með sam­einuðu fé­lagi sé búið að leggja grunn að vinnings­liði sem er vel í stakk búið til að ná eftir­tektar­verðum árangri á al­þjóða­vísu."