*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Erlent 11. febrúar 2019 11:15

Vandi Deutsche Bank dýpkar

Stærsta fjármálafyrirtæki Þýskalands, Deutsche Bank, borgar hæsta álag í Evrópu.

Ritstjórn
Höfuðstöðvar Deutsche Bank í Frankfurt í Þýskalandi.
Aðsend mynd

Deutsche Bank hefur greitt hæsta álaga á evrópska skuldabréfamarka allra stórra alþjóðlegra fjármálafyrirtækja á þessu ári. Frá þessu er greint í frétt Financial Times sem segir hið háa álag til marks um að ekki sjái fyrir endann á vandræðum bankans sem hafi glímt við háan fjármögnunarkostnaði undanfarin misseri. Það hafi vakið athygli þegar bankinn seldi 3,6 milljarða skuld í evrum og greiddi 180 punkta álag ofan á grunnvexti (e. benchmark) á skuldabréf til tveggja ára, sem skv. frétt Financial Times er há krafa fyrir skammtíma fjármögnun.

Þá hafi bankinn greitt 230 punkta yfir grunnvexti á skuldabréf til sjö ára, sem er hærra álag en spænski bankinn CaixaBank, þurfti nýlega að greiða fyrir fimm ára skuldabréf. Blaðið hefur eftir greinendum á markaði að Deutsche þurfti nú að greiða töluvert hærra álaga en nær allir evrópskir bankar en álagið endurspegli efasemdir sem hafi aðallega vaknað vegna lækkandi tekna bankans.

Blaðið segir lágan fjármögnunarkostnað hafi í áratugi verið lykilatriði í samkeppnishæfni og vexti bankans, en hinn lági kostnaður hafi stafað af því vegna stærðar bankans hafi fjárfestar litið sem svo á að hann nyti í raun ríkisábyrgðar þýska ríkisins. Hins vegar hafi breytingar á reglugerð fjáramálafyrirtækja eftir fjármálahrunið sett strik í reikninginn. Reglurnar miði að því að verja skattgreiðendur fyrir bankahruni og kveða á um að allir lánveitendur banka beri tap ef komi til ríkisinngripa vegna greiðsluþrots. Bankinn hafi samhliða misst samkeppnisforskot sitt og þetta skýri vandræði bankans í dag.

Hlutabréf bankans hafa fallið um 45% síðastliðna tólf mánuði, aðallega vegna þess að fjárfestar hafi áhyggjur af samdrætti í tekjum. Þá hafi álag á skuldatryggingar bankans tvöfaldast á sama tímabili. Stærsti banki Þýskalands borgi nú 20 punktum hærra álag á skuldatryggingar sínar en ítalski bankinn UniCredit en efnahagsreikningur hans er sagður geyma milljarða evra af vafasömum útlánum.