Ráðaleysi á neyðarfundi þjóðarleiðtoga 20 stærstu iðnríkja heims í Cannes í Frakklandi þar sem stefnt var á að koma evrusvæðinu á réttan kjöl í dag leiddi til þess að helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum enduðu í mínus í lok dags. Hlutabréfamarkaði heimsins tóku dýfu fyrr í vikunni þegar Georg Papandreo, forsætisráðherra Grikklands, lýsti því yfir að björgunaráætlun sem leiðtogar ESB-ríkjanna sættust á til að forða gríska ríkinu frá falli, færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, húðskömmuðu forsætisráðherrann fyrir athæfið og sögðu Grikki komna ansi langt á veg út úr evrusamstarfinu. Papandreú átti ekki betri daga heima fyrir í vikunni en líklegast þykir að hann hafi málað sig út í horn sem forsætisráðherra og sé rúinn trausti.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan lækkaði um 0,51%, S&P 500-vísitalan fór niður um 0,63% og Nasdaq-vísitalan um 0,44%.

Fjárfestar í Frakklandi og Þýskalandi voru talsvert svartsýnni en kollegar þeirra vestan megin við hafið. Hlutabréfavísitölur í þessum stærstu löndum Evrópusambandsins féllu talsvert, DAX-vísitalan í Þýskalandi um 2,72% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi fór niður um 2,25%a