Hlutabréfamarkaðir í Asíu hríðféllu í morgun og hlutabréf hafa einnig lækkað nokkuð í Evrópu það sem af er degi eftir að bandaríkjastjórn neitaði bandarísku bílaframleiðendunum General Motors og Chrysler um frekari neyðarlán og forstjóri General Motors var látinn víkja.

MSCI Kyrrahafsvísitalan lækkaði um 3,8% eftir að hafa hækkað um 7,5% síðustu fimm daga en við lok markaða fyrir helgi hafði vísitalan ekki verið hærri frá því í desember 2007.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 4,5%, í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan í 4,7% og í Kína lækkaði CSI 300 vísitalan um 3%.

Í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 4,2% og í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan um 1,9%.

Það voru helst bílaframleiðendur og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir í Asíu í morgun auk þess sem hækkandi gengi japanska jensins gerir útflutningsfyrirtækjum (sem vega þungt í Japan) erfitt um vik.

Honda lækkaði um 6,7%, Nissan um 7,7% og Hyundai um 3,8% (Hyundai er skráð á markaði í Seoul).

Sama sagan í Evrópu

Eins og fyrr segir hafa markaðir í Evrópu lækkað nokkuð í morgun (þó ekki jafn mikið og í Asíu) en að sögn Reuters fréttastofunnar má einnig rekja þær lækkanir til vandræða bandarísku bílaframleiðandanna auk þess sem ríkisstjórn Spánar undirbýr nú björgunaraðgerðir til handa fjármálafyrirtækjum þar í landi.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, hefur lækkað um 2,8% það sem af er degi og hefur þar með lækkað um 14% það sem af er ári.

Bílaframleiðendur á borð við Daimler, BMW, Volkswagen, Renault og Fiat hafa lækkað á blinu 5,5% - 7,7%.

Þá hafa markaðir lækkað á bilinu 0,8% í Kaupmannahöfn og 3,4% í Frankfurt, þar sem flestir bílaframleiðendurnir eru skráðir.