Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að mikilvægt sé að allir ábyrgir aðilar sem taki þátt í umfjöllun um íslenskt efnahags- og viðskiptalíf þessa dagana vandi sig.

„Enda er vitað að í því ástandi sem nú ríkir í fjármálaheiminum geta orð haft mikil áhrif,“ segir hann.

Guðjón segir að ýmsar vangaveltur í þessu viðtali virðist ekki vera í fullu samræmi við skýrar yfirlýsingar bæði forsætisráðherra og formanns bankastjórnar Seðlabankans á ársfundi bankans nýverið.

„Þeir áréttuðu þar fyrri orð um að hérlend stjórnvöld myndu, ef á reyndi, standa á bak við íslenskt fjármálakerfi og að enginn ætti að þurfa að efast um styrk ríkisins til þess,“ segir hann.

Talsmenn stóru bankanna þriggja; Glitnis, Kaupþings og Landsbanka, vildu ekki tjá sig um viðtalið þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því í gær.