Bréf í Greencore Group hækkuðu um 1,1% í kauphöllinni í Dublin í gær í kjölfar þess að greint var frá kaupum Bakkavarar á tæplega 11% hlut í félaginu. Bréfin enduðu í 3,79 evrum á hlut.

Í frétt á vefsvæði írska dagblaðsins Irish Independent kemur fram að Bakkavör hafði tryggt sér 8% hlut í Greencore Group um í febrúar síðastliðnum eins og blaðið greindi frá þá. Talsmenn Bakkavarar neituðu að staðfesta slíkt á þeim tíma. Eftir það hafi þeir haldið áfram að kaupa bréf í félaginu sem veltir 1,3 milljörðum evra.

Í frétt Irish Independent er fullyrt að það sé skilningur markaðsaðila að eigendur Bakkavarar stefni að því að sameina félögin tvö í framtíðinni. Heimildir blaðsins segja að Bakkavör hafi verið í allmarga mánuði að byggja upp 8% stöðu í Greencore Group.