Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) gerði alvarleg mistök þegar Grikklandi var bjargað frá gjaldþroti. M.a. vanmat sjóðurinn hugsanleg neikvæð áhrif björgunaraðgerðanna á evurríkin. Í bandaríska dagblaðinu Wall Street Journal í dag segir að þetta komi fram í skýrslu sem var kynnt stjórn sjóðsins á dögunum. Alþjóðlegar stofnanir hafa tvisvar sinnum þurft að koma Grikkjum til hjálpar á síðastliðnum þremur árum. Breska dagblaðið Guardian fjallar sömuleiðis um málið.

Blaðið segir m.a. að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og evrópski seðlabankinn hafi samþykkt að taka þátt í björgunaraðgerðunum vegna þess að AGS hafi gefið samþykki sitt fyrir þeim. Á hinn bóginn kemur fram í skýrslunni að Grikkir hafi ekki uppfyllt þrjá af fjórum þáttum sem nauðsynlegir voru til að uppfylla skilyrði fyrir neyðaraðstoð.