Viðskiptaráð Íslands lýsir yfir vonbrigðum með nýja búvörusamninga en það segir að samningsaðilar hafi nær alfarið litið framhjá þeim umbótatillögum sem lagðar hafa verið fram til að leita aukinnar hagkvæmni í íslenskum landbúnaði. Ráðið segir að tækifæri til að auka framleiðni greinarinnar séu vannýtt og samningarnir feli í sér afturför þegar kemur að aukinni stærðarhagkvæmni og alþjóðlegri samkeppni.

Viðskiptaráð bendir á að í nýjum búvörusamningum er að mestu litið framhjá tillögum samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem var stofnsettur 2013. Þar var lagt til að jarðræktarstuðningur yrði ný undirstaða landbúnaðarstuðnings og að dregið yrði úr sértækum stuðningi við einstakar greinar landbúnaðar, draga úr tollvernd til að auka samkeppnisaðhald landbúnaðargreina. Þetta væri gert til að tryggja að stuðningur rynni í auknu mæli til bænda og veitti þeim aukið frelsi.

  • Jarðræktarstuðningur er aukinn úr 1% í 5,3%. Samráðsvettvangurinn hafði lagt fram tillögu um 50%. Með samningunum er því áformað að fara um einn tíunda í þá átt sem þar var lagt til á tíu ára tímabili.
  • Ekki er dregið úr sértækum stuðningi við einstaka greinar landbúnaðar í nýjum samningum.
  • Í nýjum samningum eru hvatar gegn stærðarhagkvæmni. Viðskiptaráð segir að það sé til dæmis gert með þaki á tilkalli til stuðnings sem nemur 0,4% af heildarstuðningi í sauðfjárrækt og 0,7% í nautgriparækt.
  • Ráðherra er skuldbundinn til að beita sér fyrir umtalsverði hækkun tolla á ostur og ákveðnum mjólkurvörum. Slík hækkun er til þess fallin að draga úr samkeppnisaðhaldi landbúnaðar. Að mati ráðsins ætti ákvæði þetta ekki að vera hluti af samningi um beingreiðslur til íslensks landbúnaðar enda ekki hlutverk framkvæmdavaldsins að auka tollvernd í samningum við þriðja aðila.
  • Í samningunum var kveðið á um tvær endurskoðanir á samningunum, árin 2019 og 2023. Ekki eru tilgreind árangursviðmið sem landbúnaðargreinarnar þurfa að uppfylla til að njóta áfram stuðnings. Þvert á móti má þar finna ákvæði um að stuðningur skuli aukinn ef framleiðsla nái ekki ákveðnum markmiðum. Endurskoðunarákvæðin geta því einvörðungu leitt til aukinna niðurgreiðslna til landbúnaðarins í framtíðinni.

Viðskiptaráð segir að telja megi ljóst að við samningsgerðina hafi þröngir skammtímahagsmunir verið hafðir að leiðarljósi í stað heildarhagsmuna.

„Að mati Viðskiptaráðs eru samningarnir afar óhagfelldir skattgreiðendum sem og neytendum. Þá eru þeir til þess fallnir að halda íslenskum landbúnaði áfram í fjötrum lágrar arðsemi og lítillar framleiðni til næstu tíu ára. Ráðið hvetur Alþingi til að synja samningunum staðfestingar.“