„Ríkið hefur ekki lagt neitt bitastætt fram ennþá og við munum ítreka enn frekar þær kröfur sem við höfum verið með. Í raun og veru gerist lítið fyrr en það fæst meira inn í þetta. Það vantar einfaldlega meiri peninga af hálfu ríkisins,“ segir Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), í samtali við Morgunblaðið .

Þar er greint frá því að rúmlega 2.300 félagsmenn BHM hafi lagt niður störf á hádegi í gær og hluti þeirra hafi komið saman á samstöðufundi á Lækjartorgi. Gekk hópurinn þaðan að efnahags- og fjármálaráðuneytinu og afhenti áskorun.

Tilboð ríkisins í launadeilunni hljóðar upp á 3,5% launahækkun. Um kröfugerð BHM segist Páll ekki vilja ræða tölur eða prósentur í því samhengi. Hann segir málið flókið. „Við erum t.d. að tala um stofnanir sem hafa verið fjársveltar mjög lengi, við erum að fást við almenna launaþróun annarra háskólastétta sem hafa verið að semja upp á síðkastið. Það er hægt að benda á læknasamningana sem dæmi um það.“