Vantrauststillaga á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur verið rædd innan allra stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, en þetta kom fram á RÚV í kvöld.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir þar að auki að ráðherrann sé í erfiðri stöðu vegna umræðunnar sem skapast hefur í kjölfar þess að eiginkona hans greindi frá því að hún ætti aflandsfélag sem á kröfur upp á hundruðir milljóna á föllnu bankana.

Sigmundur Davíð hefur ekki orðið við beiðnum um viðtal eða svarað skriflegum fyrirspurnum frá fréttastofu RÚV vegna málsins. Hann skrifaði hins vegar grein á heimasíðu sína þar sem hann lýsti yfir óánægju með umræðuna sem skapast hefur.

Samkvæmt heimildum RÚV hefur vantrauststillaga komið til tals innan allra stjórnarandstöðuflokkanna á þingi, þó þeir hafi enn ekki rætt saman formlega um sameiginlega tillögu. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, vill að forsætisráðherra víki í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið.