*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 28. apríl 2020 10:24

Var skjaldborgin rannsökuð?

Ágúst leggur til rannsókn á aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19. Bjarni spyr á móti hvort skjaldborgin hafi verið rannsökuð.

Sveinn Ólafur Melsted
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, leggur til að þær efnahagslegu aðgerðir sem ráðist hefur verið í vegna hrunsins, sem hefur átt sér stað í kjölfar COVID-19 faraldursins, verði rannsakaðar. Þetta kemur fram í pistli hans sem birtist á Vísi í morgun.

„Nú er allt samfélagið í rústabjörgun og óvissan er mikil. Kynntir eru aðgerðarpakkar stjórnvalda og bankar ráðast í alls konar aðgerðir gagnvart fyrirtækjum og fólkinu í landinu. Stórkostleg tilfærsla á fjármunum mun eiga sér stað og ákvarðanir um hvaða fyrirtæki lifa og hvaða fyrirtæki munu deyja verða teknar. Þá munu fjármunir og störf glatast og margs konar lobbýsimi fyrir sérhagsmunum mun eiga sér stað.

Nú eru rúm 11 ár síðan bankahrunið var. Í því hruni fór margt úrskeiðis, tæplega 30 íslenskir bankamenn voru dæmdir í óskilorðsbundið fangelsi. Sumar aðgerðir stjórnvalda og banka urðu mjög umdeildar. Þá var hins vegar ákveðið að setja á fót öfluga rannsóknarnefnd sem hafði nánast ótakmarkaðar heimildir til að gera upp málin, bankaleynd var afnumin og sérstakt embætti saksóknara tók til starfa. Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu skipti samfélagið miklu máli,“ segir m.a. í pistli þingmannsins.

Ágúst segir að vissulega séu þessi tvö hrun eðlisólík, enda bendi ekkert til brota á lögum í hruninu sem nú gengur yfir. Þó sé ljóst að ákvarðanir stjórnvalda og annarra aðila verði umdeildar. Þó orsök núverandi hruns sé ljósari en þess síðasta þá standi eftir að aðgerðir sem stjórnvöld grípi til vegna hrunsins sem nú gengur yfir þurfi að koma til skoðunar. Einnig skipti máli að 2 af 3 stærstu viðskiptabönkum séu í eigu ríkisins og því þurfi allar aðgerðir bankanna sérstaklega að vera hafnar yfir allan vafa.

Bjarna ekki skemmt

Þessi hugmynd Ágústs virðist ekki falla vel í kramið hjá Bjarna Benediktssyni, efnahags- og fjármálaráðherra. Í tísti ráðherrans segir að með vísan um orsakir og aðdraganda falls bankanna 2008 vilji Ágúst Ólafur nú rannsaka efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19, þrátt fyrir að flestar þeirra fari fyrir Alþingi til samþykktar. „Hvernig var það, var skjaldborgin 2009-2013 rannsökuð?,“ spyr Bjarni að lokum.