Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fulltrúi í efnahags- og skattanefnd þingsins, kallaði til varamann sinn í nefndina í morgun svo hægt yrði að afgreiða nefndarálit Samfylkingar og VG um Icesave-ríkisábyrgðina sem meirihlutaálit.

Varamaðurinn Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG, skrifaði þar með undir nefndarálitið. Það gerðu einnig Samfylkingarþingmenn í nefndinni sem og Álfheiður Ingadóttir, hinn fulltrúi VG í nefndinni.

Lilja segir að formaður nefndarinnar, Helgi Hjörvar, hafi viljað hafa þetta svona.

„Ég ákvað að kalla inn varamann því ég er ekki sammála í öllum atriðum nefndarálitinu," segir Lilja í samtali við Viðskiptablaðið. „Kjarninn í álitinu er að það felist mikil hætta á því að hafna [Icesave]-samningunum; allar lánalínur stoppi. Ég hef hins vegar bara heyrt fullyrðingar frá stjórnarliðum um að svo gæti orðið en ekki séð nein gögn um það. Ég tel því minni hættu á því að það muni gerast."

Þegar Lilja er spurð hvers vegna hún hafi ekki bara skilað séráliti í nefndinni segir hún að það skipti í sjálfu sér ekki máli hvort hún upplýsi um afstöðu sína í nefndarskjali, í ræðum Alþingis eða í fjölmiðlum.

„Ég vil eiga gott samstarf við Helga Hjörvar og honum leið betur með að hafa þetta svona," segir hún. „Ég er varaformaður nefndarinnar og mun því starfa áfram með honum."

Hún hafi heldur ekki viljað tefja málið frekar.

Þá segist hún hafa fengið því framgengt að fimm hagfræðingar efnahags- og skattanefndar myndu starfa fyrir fjárlaganefnd í  málinu.

Ekki hefur náðst í Helga Hjörvar.