Takist ekki að semja um lengingu á endurgreiðslu á skuld Landsbankans við gamla Landsbankann, LBI, í erlendum gjaldeyri má telja sennilegt að kröfuhafar bankans sitji fastir með reiðufé sitt innan fjármagnshafta á Íslandi um ófyrirsjáanlega framtíð, segir í bréfi Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, til slitastjórnar LBI og greint er frá á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

„Með því að samþykkja lengingu og endurskoðun á skilmálum erlendra skuldabréfa Landsbankans eru meiri líkur á að slitastjórn Landsbankans (LBI) takist að fá fyrr en ella undanþágu frá Seðlabanka Íslands til að halda áfram útgreiðslum til kröfuhafa,“ segir í frétt Morgunblaðsins af bréfi bankastjórans. Vill hann hefja formlegar viðræður í júní.

Í fréttinni segir að meðal annars sé farið þess á leit við LBI að greiðslutími á 290 milljarða erlendum skuldbindingum Landsbankans verði lengdur um tólf ár - lokagjalddagi verði á árinu 2030 í stað 2018 - og að núverandi vextir skuldabréfanna haldist óbreyttir næstu fimm árin. Samkvæmt þeim skilmálum sem nú eru í gildi er gert ráð fyrir því að álagið ofan á Libor-vexti hækki í október á þessu ári úr 1,75% í 2,9% segir í frétt Morgunblaðsins.